© 2019 by Iceland Sync. All rights reserved.

PHOTOS HERE

Sólborg ólst upp í Keflavík og hefur vakið mikla athygli á samfélags- og fréttamiðlum landsins undanfarin ár. Sólborg tók þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins 2018 með lagið Ég og þú/Think it through sem hún samdi og flutti. Þá starfaði hún einnig með Áttunni, stundar nám í lögfræði við Háskóla Íslands og sem hefur þrátt fyrir ungan aldur náð gríðarlegum árangri í baráttunni gegn kynferðisofbeldi með instagram síðunni „Fávitar” sem hún stofnaði til að berjast gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi. Síðan hefur í dag tæplega 26 þúsund fylgjendur sem standa saman í því að segja frá ofbeldi, styðja hvert annað og vinna gegn kynferðisofbeldi. Í kjölfarið var Sólborg tilnefnd sem ein af tíu framúrskarandi ungum Íslendingum árið 2019 af JCI Iceland og forseta Íslands fyrir framlag sitt til barna, heimsfriðar og mannréttinda. Einnig var hún tilnefnd sem ein af íslenskum aktívistum til UN Women á heimsvísu núna 2019.

 

Tónlist og listsköpun hefur átt hjarta Sólborgar að mestu og stefnir hún ótrauð á að gefa út tónlist á næstu mánuðum, hún stefnir hátt og hefur nú þegar tryggt sér útgáfusamning við Sony Music Denmark. 

 

Sólborg semur sína tónlist sjálf, spilar undir á píanó eða útsetur áður samin lög ásamt færu fagfólki og fylgir hjarta sínu með sín markmið og tónlistarstefnu. Hún hefur verið að semja og taka upp með hæfileikaríku tónlistarfólki um allan heim og hefur m.a. tekið upp tónlist með öðrum tónlistarmönnum í London og Finnlandi. Þá hefur hún undanfarnar vikur verið í stúdio með fjölda íslensks tónlistarfólks.

 

Hún hefur á undanförnum árum unnið sem bakraddasöngvari á tónleikum og má þar nefna tónleikaröðina Með blik í auga síðastliðin 9 ár þar sem hún hefur raddað fyrir helstu tónlistarmenn landsins. Þar má nefna t.d. Jóhönnu Guðrúnu, Heru Björk, Jón Jónsson, Björgvin Halldórsson, Sverri Bergmann, Egil Ólafsson o.fl. Sólborg gekk til liðs við Áttuna árið 2018 og gaf út með þeim lögin Einn séns og L8 sem hún spilaði m.a. með þeim á þjóðhátíð.

 

Sólborg hefur einsett sér að hefja sinn sóloferil árið 2020 með útgáfu á þremur smáskífum og í kjölfarið að gefa út stuttskífu. Hún hefur nú þegar tryggt sér réttindin á tveimur lögum sem eru samin af Ölmu Guðmundsdóttur, Klöru Ósk Elíasdóttur, Aaron Zuckerman og Glashausser bræðrunum Daniel og Thomas. Tónlistin mun vera meira og minna unnin og samin af Sólborgu en hún hefur mikin metnað fyrir því að vinna með hæfileikaríkum lagahöfundum til að koma sér enn lengra og læra af. Sony Music Denmark hefur heillast af hæfileikum, sköpunarkrafti og eldmóði Sólborgar sem mun koma fram undir listamannanafninu SunCity og hefur verið ákveðið að skrifa undir dreifingarsamning við hana í janúar 2020. Áætlað er að gefa út fyrsta lag hennar í lok mars 2020 og mun því vera fylgt eftir útgáfu á tónlistarmyndbandi og framkomum. Lag númer tvö er áætlað í maí 2020 og það þriðja um Verslunarmannahelgina í ágúst 2020. Myndbönd munu fylgja lögum tvö og þrjú. Áætluð útgáfa á stuttskífu er svo í október með útgáfutónleikum og framkomu á Airwaves 2020.