Ég heiti Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir en kölluð Steinunn Camilla.
Ég er 37 ára, fædd 13. Júlí 1984. Ég er trúlofuð Erlingi Erni Hafsteinssyni, Verkfræðingi og við eigum eina dóttur, Alexöndru Ellý sem verður 4 ára í Maí. Ég er fædd og uppalin og bý nú í Kópavoginum en hef búið víða, eins og Bretlandi og Bandaríkjunum, verið með annan fótinn á Spáni frá 3 ára aldri og ferðast mikið. Ég samdi ljóð, átti leikús, var í hljómsveit og var alin upp í rótgróinni verslun á Laugaveginum. Ég lærði Alþjóðaviðskiptafræði, Mannfræði, með diplóma í Skapandi Greinum, hannaði skartgripi, hef verkstýrt fjölda tónleika og tónlistarmyndbanda, vann hjá fjármálastofnun, plötufyrirtækjum og byggingaverktaka. Ég stofnaði fyrirtæki, tók við fyrirtæki og hef verið í stjórnum félagasamtaka. Ég er frumkvöðull og ég er hugmyndapera. Ég á auðvelt með að koma fram opinberlega og á auðvelt með að vinna með fólki. Ég er með ríka þjónustulund, fróðleiksfús og er fljót að tileinka mér það sem fyrir mér er lagt. Ég er hugmyndarík og óhrædd og ég er vandvirk og samviskusöm. Ég er metnaðarfull og með mikla ævintýraþrá og ástríðufullur listunnandi. Mér finnst gaman að vinna og koma verkefnum í höfn. Ég hef sterka réttlætiskennd, stend með mínu fólki og er til staðar. Ég hlusta og ég er kurteis manneskja sem ber virðingu fyrir skoðunum annarra. Ég vil gera hlutina vel, betrumbæta umhverfið mitt og mig sjálfa. Mitt mottó í lífinu er að ég kem fram við aðra eins og ég óska að aðrir komi fram við mig. Ég er einnig mjög hrifin af kaffi og tel að spjall yfir góðum rjúkandi bolli komi af stað milljónum hugmynda sem má svo keyra í með góðum hópi fólks og fagna svo vel með góðri köku.
Ég hef komið víða við á mínum ferli. Ég byrjaði snemma að vinna og vann alla mína tíða með námi og öðru sem mér datt í hug að gera. En það var tónlistin og list almennt sem hefur verið hvað fyrirferðamest á mínum ferli. Á árunum 2004-2015 var ég hluti af kvennatríóinu The Charlies áður Nylon, sem söngkona og umboðsmaður og nú á ég og rek Iceland Sync Management ehf, umboðs- og bókunarskrifstofu tónlistarmanna. Það var svo 2016 sem ég tók þá ákvörðuna að flytja aftur til Íslands því í mér blundaði mikill metnaður fyrir því að koma með þá þekkingu sem ég hafði viðað að mér, heim til að hjálpa við uppbyggingu tónlistariðnaðar hér á landi. Hef ég, síðan ég kom heim, unnið með frábæru fólki og samtökum lista eins og STEF, ÚTÓN, og mörgum fleiri frábærum samtökum og aðilum. Ég hef átt góðu gengi að fagna og lít stolt yfir minn feril. Ástríða mín að skila af mér góðu verki hefur leitt mig í ótal mörg mismunandi verkefni sem hefur kennt mér að halda mörgum boltum á lofti í einu.
Ég er mikill lestrarhestur, les hratt og les mikið og hef nýtt mér hljóðbækur sérstaklega mikið eftir að dóttir mín fæddist. Að leika mér með orð er eitthvað sem hefur alltaf heillað mig sem hefur skilað sér í útgefnum og óútgefnum ljóðabókum, smásögum og lagatextum og orð samtengir allar mínar ástríður. Ég hef góð eyru og bý yfir reynslu og kunnáttu í upptökum sem kemur að góðum notum í að bóka aðila í upptökur og verkefnastjórnunar reynsla mín sem nær yfir s.l 15 ár kemur sér einnig mjög vel í að forgangsraða og vinna að öllum þeim verkefnum sem þarf að tækla hverju sinni.
Það er svo margsannað að þegar menningar-og listalíf blómstar, eykur það lífsgæði þeirra sem þar búa, stuðlar að breiðari grunni atvinnulífsins og saman komum við (þegar ekki er samkomubann) og njótum lista. Eins og þessar fordæmalausu aðstæður sem eru núna um allan heim, leita einstaklingar til lista, myndlistar, bóka, hljóðbóka, tónlistar og kvikmynda. Það er listin sem styttir stundir og sefar kvíðann. Að geta boðið upp á breiðari list í hljóði, ljóði, í orðum er eitthvað sem er bráðnauðsynlegt og myndi það gefa mér persónulega mikið að geta verið í þeirri aðstöðu að auka lífsgleði fólks.
Á Íslandi búum við að grósku miklu listalífi sem á sér engin takmörk þegar kemur að ástríðu og hæfileikum og er ég þakklát fyrir að vera hluti hópi einstaklinga sem vinna að því að gleðja hugu og hjörtu með list.